Fyrri mynd
Nsta mynd
Ok
Velkomin heimasu Sguflags Skagfiringa. Vi notum vefkkur (e. cookies) til ess a bta upplifun na og greina umfer um suna.
Me v a nota vefsuna samykkir notkun vefkkum og skilmla okkar.
Open Menu Close Menu
 
Viburir vikunnar - 31. október 2011 - 22:08

Viðburður vikunnar - Skriðuföllin í Kolbeinsdal 1858

Sunnudaginn annan í vetri, 31. október árið 1858, féllu miklar skriður á Skriðulandi, tóku bæinn að mestu, nokkur peningshús og hey. 45 sauðkindur fórust og mikið af túni og engjum eyðilagðist. Innanstokksmunir töpuðust flestir og öll matvæli til vetrarins. Þá bjuggu á Skriðulandi Jóhann Pétur Hallsson og Ragnheiður Pálsdóttir. Voru 11 manns í heimili. Fólkið flúði bæinn og bjargaðist naumlega en jörðin fór í eyði til vorsins 1860.

Mikið hafði snjóað fyrr í mánuðinum en síðan kom asahláka með rigningu og stormi. Ítarleg frásögn birtist í blaðinu Norðra, skráð eftir frásögn Jóhanns bónda: Að morgni 31. október gekk Jóhann út að skyggnast um, nýkominn á fætur. Sá hann þá hvar skriða tók sig upp í fjallinu langt norðan við bæinn og stefndi á nokkur hross. Sum hörfuðu þegar undan en tvö stóðu kyrr. Klauf skriðan sig þar svo að þau sakaði ekki. Hljóp hann þegar af stað og óð forarflóa vegna þess að grundirnar voru ófærar orðnar af aurflóðinu. Náði hann hrossunum tveimur og reið þegar heimleiðis með tömdu hrossin en að vörmu spori komu nýjar spýjur sem fylltu eyðuna þar sem hrossin höfðu verið. Meðan hann var á heimleið féll stór skriða norðan til á túnið. Þegar heim kom rak hann ærnar út úr fjárhúsunum suður á vallarhornið neðsta sem varðist skriðunum um daginn. Í sama bili tók sig upp afarmikil skriða sunnan bæjarins. Stefndi hún nálægt þremur hrossum sem þar voru. Flýtti hann sér þangað og rak hrossin frá en í sama vetfangi náði rennslið úr skriðunni hælunum á fararskjóta hans. Sneri hann þá aftur til bæjarins. Hljóp þá fram skriða sem stefndi á bæinn sjálfan. Voru börnin þá klædd og fólkið allt og komið út suður fyrir bæjarhlaðið. Fór Jóhann þá með fólkið í fjárhús suður og niður við vallargarðinn. Þessi skriða tók helftina af ærhúsheyinu, skildi eftir tvö stór björg í tóftinni og hið þriðja í tóftardyrunum en hratt heyinu sem eftir var, ásamt veggnum, fram á fjárhúsin. Sama skriða klauf sig um fjósið, sleit upp tvær hurðir og hálffyllti það með aur og leðju svo að ógerlegt var að ná þaðan nautgripunum. Bóndi hafði nú snúið inn í bæinn til að ná í mjólk handa börnum sínum, því enginn hafði nokkurs neytt. En þegar hann var á leið til fjárhússins þangað sem fólkið hafði flúið sá hann hvar einhver stærsta skriðan tók sig upp í fjallinu og stefndi á fyrrnefnt fjárhús og fleiri hús er stóðu á túninu. Kallaði hann þá að fólkið skyldi forða sér lengra suður á grundina. Hefði þetta þó ekki komið að haldi ef skriðan hefði haldið óbreyttri stefnu. Hún tók fyrst tvö hús sem ofar stóðu með heyi sem við þau var og 45 sauðkindum er inni voru, síðan tvö hesthús ásamt heyinu en hallaði sér síðan til norðurs og náði bænum. Umturnaði hún í einu vetfangi nýbyggðri baðstofu, búri, eldhúsi og bæjargöngum, ásamt smiðju sem stóð spölkorn frá. Þegar um hægðist sneri Jóhann aftur út að bæjarstæðinu. Sá hann þá að neðan við stóran kálgarð, sem verið hafði framundan bænum, flutu nokkur sængurföt sem hann náði.

Þegar hér var komið hafði heimafólk leitað skjóls undan slagveðrinu í litlu grjótbyrgi sunnan og neðanvert við grundirnar en ekki sýndist annað fyrir hendi en flýja jörðina. Var þó ekki hælis að leita á næstu bæjum sömu megin ár því að skriður höfðu fallið beggja megin og lokað þeirri leið. Jóhann fór því að ná saman hestum og tókst að ná reiðtygjum úr skemmu sem uppi stóð að hálfu leyti. Kolka var í geypiflóði svo að engum hefði dottið í hug að leggja í hana nema í dauðans neyð. En það varð fangaráð Jóhanns og yfir tókst honum að komast með fólk sitt, þar af 8 börn. Komust þau yfir að Fjalli en þar var þá ekki að heldur vært vegna skriðuógnar og fóru þau áleiðis vestur yfir Hálsinn og komust að Víðinesi. Víðinesáin var ófær svo að þau komust ekki fram í Hóla, þangað sem ferðinni var heitið.

Daginn eftir fór Jóhann ásamt fleirum mönnum ríðandi yfir í Skriðuland. Fjósið stóð þá uppi en var næstum grafið í aurbleytu. Varð að rjúfa stafninn til að komast inn þar sem nautgripirnir stóðu í kvið í aurbleytunni. Náðust kýrnar fjórar óskemmdar ásamt tveimur kvígum og nauti. Matvæli öll eyðilögðust úr búri og búsgögn úr eldhúsi, utan tveir pottar. Eftirlifandi skepnur ásamt því heyi er bjargaðist var flutt til Hóla þar sem fjölskyldan var um veturinn en næsta vor fengu þau ábúð á Nautabúi. Þau fluttust síðar til Vesturheims árið 1876 og við Jóhann er kenndur bærinn Hallson í Norður-Dakota.

Heimild: Byggðasaga Skagafjarðar, VI. bindi. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga 2011.

Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags Skagfirðinga fyrir árin 2019-2020 var haldinn í Safnahúsinu á Sauðárkróki fimmtudaginn 18. nóvember 2021 kl. 16.15. Hjalti Pálsson formaður félagsins setti fund, bauð gesti velkomna og gat þess að aðalfundur ársins 2019 hefði farist fyrir vegna covid-ástands haustið 2020. Í upphafi fundar minntist hann Kristmundar Bjarnasonar rithöfundar og heiðursfélaga frá árinu 2008 en Kristmundur lést þann 4. desember 2020 og vantaði þá rúman mánuð í að verða 101 árs.
:: meira

Aðalfundur Sögufélags 18. nóvember

Aðalfundur Sögufélags Skagfirðinga fyrir árin 2019 og 2020 verður haldinn í Safnahúsinu á Sauðárkróki, efri hæð, fimmtudaginn 18. nóvember 2021 kl. 16.15. Dagskrá: Minnst látins heiðursfélaga Skýrsla formanns Reikningar fyrir árin 2019 og 2020 Kosning í stjórn og varastjórn Staða félagsins Önnur mál Allir félagsmenn velkomnir og kaffisopi á könnunni. Stjórnin.
:: meira

Síðasta bindi Byggðasögu Skagafjarðar farið í prent

Hver staður hefur sinn sjarma og sín sérkenni, segir Hjalti Pálsson

Í tilefni af því að síðasta bindi Byggðasögu Skagafjarðar er nú komin í prentun tók Páll Friðriksson ritstjóri Feykis viðtal við Hjalta Pálsson, sem hér er birt.
:: meira

Útgáfuhátíð ævisögu Eyþórs Stefánssonar

Föstudaginn 27. ágúst var haldin útgáfuhátíð bókar Sölva Sveinssonar um Eyþór Stefánsson tónskáld. Bókin, sem kom út í tilefni af 120 ára fæðingarafmæli Eyþórs, sem einnig ber upp á 150 ára byggðaafmæli Sauðárkróks. Sögufélag Skagfirðinga er útgefandi bókarinnar með stuðningi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en Eyþór var heiðursborgari Sauðárkróks.
:: meira

Útgáfuhóf ævisögu Eyþórs Stefánssonar

Næstkomandi föstudag verður haldið útgáfuhóf bókarinnar Eyþór Stefánsson tónskáld Ævisaga, sem Sölvi Sveinsson hefur tekið saman en gefin út af Sögufélagi Skagfirðinga. Útgáfuhófið hefst kl 4 síðdegis á KK-Restaurant, Aðalgötu 16 á Sauðárkróki, neðri hæð og þar vera léttar veitingar í boði og bókin til sölu á sérstöku tilboðsverði. Allir eru velkomnir en gestir minntir á sóttvarnareglur.
:: meira
Ævisaga Eyþórs Stefánssonar
Ævisaga Eyþórs Stefánssonar

Ævisaga Eyþórs Stefánssonar

Komin er úr prentun Ævisaga Eyþórs Stefánssonar tónskálds á Sauðárkróki sem Sölvi Sveinsson hefur tekið saman eftir mörgum heimildum og Sögufélag Skagfirðinga gefur út. Dreifing bókarinnar mun þó ekki hefjast fyrr en kringum mánaðamótin ágúst/september. Stefnt er að útgáfuhófi á Sauðárkróki síðustu helgina í ágúst ef ástand leyfir í þjóðfélaginu. Félagsmönnum verður sent bréf og tilkynning um bókina. Með því að ýta á meðfylgjandi kápusíðu má sjá nánari upplýsingar um hana.
:: meira