Fyrri mynd
Nsta mynd
Ok
Velkomin heimasu Sguflags Skagfiringa. Vi notum vefkkur (e. cookies) til ess a bta upplifun na og greina umfer um suna.
Me v a nota vefsuna samykkir notkun vefkkum og skilmla okkar.
Open Menu Close Menu
 
Viburir vikunnar - 23. desember 2011 - 22:00

Viðburður vikunnar - Snjóflóðið á Sviðningi

23. desember 1925

Snjóflóðið á Sviðningi aðfaranótt Þorláksmessu 1925

Veðrátta var óvenjuhörð í Kolbeinsdal á jólaföstunni 1925, snjóar miklir og frost en spilliblotar á milli. Varð þá rifahjarn og færi gott en snjódýpt mikil og gerði jarðlaust svo að hross fóru almennt á gjöf um miðjan desember. Að kvöldi 20. desember fór að snjóa og á næstu fimm dægrum féll svo mikill snjór að menn mundu þá ekki annað eins á jafnskömmum tíma. Veðurhæð var aldrei mikil en snjófall því meira. Þegar upp stytti var lausafönnin slík ofan á hjarninu að öflugustu hestar komust ekki frá húsdyrum.

Sölvi og Anton, bændur á Sviðingi, gengu seint til náða að kvöldi hins 22. desember. Kýr hafði borið í fjósi síðdegis eða um kvöldið og biðu þeir þess að hún yrði heil. Anton bjó í framskála eins og áður greinir en Sölvi í nýju baðstofunni. Hún sneri gafli upp að fjallinu en gluggalanghlið inn til dalsins. Vegna halla landsins var hún grafin niður til austurs svo að einungis stafnrisið stóð frílega upp úr jörðu. Tvö stafnrúm voru undir austurgafli, enda við enda, og svaf Sölvi bóndi í því ytra en Jónína húsfreyja í því syðra með Sigríði, 11 mánaða gamla dóttur sína, hjá sér. Sneru bæði fótum til norðurs en höfðalagið inn eftir dalnum. Við norðurlangvegg var Hansína Benediktsdóttir 57 ára húskona og hafði hjá sér Önnu Sölvadóttur tveggja ára. Við suðurvegg á móti var Guðbjörg Baldvinsdóttir húskona 73 ára.

Nálægt kl. 6 að morgni 23. desember vöknuðu Anton og Sigurjóna við að skálinn nötraði og brast í viðum. Ekki áttuðu þau sig á hvað var að gerast, ekki fyrr en nokkru síðar, að Anton fór á fætur og gekk út. Þá var blindhríð en á hlaðinu stóðu tveir kvígukálfar. Komst Anton þá brátt að raun um hvað gerst hafði. Snjóflóð hafði fallið, brotið niður eldhúsið og baðstofuna og svipt af fjósþakinu. Hann kom kvígunum inn í bæjardyrnar en austurstafn fjóssins hafði að nokkru fallið inn og limlest þar tvær kýr svo að þær voru að dauða komnar. Þegar Anton gekk aftur inn í bæinn til að huga að sambýlisfólkinu komst hann ekki nema inn í bæjargöngin að hurðinni sem skildi að eldavélarhúsið og göngin. Þar fyrir innan var troðið af snjó. Varð honum þá ljóst hvað gerst hafði, snaraðist út í myrkrið og stórhríðina og upp á bæinn.

Snjóflóðið hafði sópað burtu baðstofuþakinu og brotið niður efri hluta stafnsins, niður að bita. Var baðstofutóftin full af snjó, blönduðum spýtnabraki og torfi er huldi gjörsamlega rúmstæðin. Anton hafði skóflu og hóf þegar í stórhríðinni að grafa við austurstafninn, yfir rúmi Sölva. Komst hann svo langt niður að honum þótti með ólíkindum að finna ekkert, kallaði niður en heyrði ekkert hljóð og taldi þá víst, eins og síðar kom í ljós, að Sölvi væri látinn. Síðar kom í ljós að snjóþunginn hafði brotið gólfið með rúmstæðunum svo að það féll niður í botn tóftarinnar. Sneri Anton sér þá að þeim stað við norðurvegginn sem hann vissi yfir rúmi Hansínu. Tókst honum þar að finna Hansínu og Önnu litlu sem hjá henni var í rúminu. Voru þær orðnar kaldar en lítt skaddaðar. Fór hann fyrst með barnið en síðan Hansínu fram í skálann til konu sinnar sem veitti þeim aðhlynningu. Anton var annálað hraustmenni og ætlaði sér að halda áfram björgunarstörfum en komst brátt að því að það var vonlaust einum manni við þessar aðstæður, í stórhríð og myrkri að rífa upp harðbarinn snjóinn, blandaðan torfi og spýtnabraki en skafhríðin fyllti jafnóðum í þær holur sem hann reyndi að grafa. Hann varð að sækja hjálp.

Á bænum voru tvenn skíði sem reist höfðu verið upp við skálaþilið kvöldinu áður. Þau voru horfin. Anton varð þess fljótt áskynja að hann komst lítt áfram í lausafönninni. Sneri hann þá við og gat útbúið sér einskonar snjóþrúgur og á þeim komst hann út að Smiðsgerði, um eins og hálfs kílómetra leið.

Anton var örmagna er hann hafði brotist út í Smiðsgerði. Ungur piltur á bænum fór þegar í stað út í stórhríðina til að gera viðvart. Þrátt fyrir óveður og fannfergi var brugðist hart við, safnað liði allt út að Óslandi. Fóru menn af hverjum bæ, sem færir voru, sumir einir saman, aðrir í hóp. Var sérlega ógreiðfært í myrkrinu milli Smiðsgerðis og Sviðnings þar sem mörg snjóflóð höfðu fallið á þeirri leið. En þrátt fyrir hríðarveður, ófærð og náttmyrkur datt engum í hug að þeir gætu villst af leið, menn sem færu slíkra erinda. Um kvöldið var hjálparliðið að tínast á vettvang og að nýju var tekið til við að grafa. Veður var þá að ganga niður en verkið sóttist mjög seint því að snjórinn var nú storkinn og orðinn gjallharður.

Þegar flóðið braut niður þak og þiljur hafði gaflþilið lagst yfir rúmin Sölva og Jónínu. Reyndu björgunarmenn fyrst að höggva þilið með exi en vannst ekki. Það var ekki fyrr en þeir gengu undir flekann allir í senn og sprengdu hann upp með átaki að þeir komust að Jónínu. Hún var þá enn á lífi og með fullu ráði eftir 21 klukkutíma undir fargi flóðsins en að vonum illa haldin. Barn hennar sem lá fyrir ofan hana í rúminu hafði kramist svo undir þilinu að það dó fljótlega en ekki þrengdi svo að Jónínu að ylli alvarlegum meiðslum. Eftir að björgunarmenn höfðu borið Jónínu inn í skálann til Sigurjónu gat hún greint frá atburðum.

Þegar snjóskriðan braut stafnþilið yfir rúm Sölva og Jónínu lagðist þunginn miklu meira yfir Sölva. Gekk þá nagli í höfuð hans og veitti þann áverka að hann lést stuttu síðar. Sölvi var þrekmenni og fullhugi og töluðust þau Jónína við stutta stund meðan hann beið dauðans. Taldi hann í hana kjark og bað henni blessunar og kvaðst trúa að henni mundi verða bjargað. Um sama leyti og Jónína skynjaði að Sölvi væri látinn slitnaði lífið af Sigríði litlu við hlið hennar. Leið Jónína þá um stund í ómegin og allan tímann síðan mun hún öðru hverju hafa verið í yfirliði en vaknað til vitundar þess á milli.

Meðan björgunarmenn leituðu að líki Sölva heyrðu þeir hljóð við suðurvegginn þar sem rúm Guðbjargar var. Grófu þeir þar til og fundu hana með lífsmarki en í þeim svifum dó hún í höndum þeirra. Hafði snjórinn lagst mjög að sængurfötum hennar og valdið miklum kulda. Þótti með ólíkindum hve lengi hún hafði lifað. Eftir þetta báru menn líkin inn í suðurskálann og veittu umbúnað eftir föngum. Þá var liðinn sólarhringur frá flóðinu, himinn að verða heiðskír en veður frjósandi.

Menn voru örmagna eftir erfiðið og tóku nú hvíld og hressingu hjá Sigurjónu. Eftir það var farið að huga að búpeningi. Áður er getið um afdrif fjóssins og kúnna. Fjárhús Antons á Gerðinu fram og upp frá bænum höfðu sópast burtu með flóðinu og allar kindurnar farist, nær 30 að tölu, utan ein sem stóð undir veggbroti og sakaði ekki. Einnig höfðu tvö hross Antons kafnað í hústóftinni. En fjárhús Sölva höfðu sloppið. Hafði flóðið klofnað ofan við þau og farið niður báðum megin en kindurnar sakaði ekki.

Komið var nær hádegi er björgunarmenn fóru frá Sviðningi. Héldu þeir til næstu bæja þeirra erinda að finna skíðasleða sem þeir síðan drógu á sjálfum sér. Höfðu þeir enga bið en sóttu fólkið sem lifandi var og óku með það burtu af bænum.

Þegar bjart var orðið og menn gátu glöggvað sig á umhverfinu kom í ljós að framskálarnir og búrið, sem var norðast bakhúsanna, stóðu enn uppi ásamt fjárhúsum Sölva. Anton hafði misst allar sínar skepnur utan eina kind en fólk hans lifði óskaddað, matvæli og innanstokksmunir björguðust þeir sem verið höfðu í skálanum. Helmingur af fjölskyldu Sölva hafði dáið en búpeningur hans sloppið nema ein kýrin. Ljóst var að snjóflóðið hafði tekið sig upp ofarlega í Sviðningshnjúk og flætt niður í mikilli breiðu sem menn töldu að næði allt að kílómetra á breidd. Var kraftur þess svo mikill að það fór yfir Kolku og hrannaðist upp handan hennar. Marteinn Steinsson sem fór nokkrum dögum síðar ásamt Magnúsi Vilhelmssyni til að sækja fjórar ær, sem Pálmi Símonarson á Svaðastöðum hafði átt í fóðrum hjá Sölva, sá þá heydreifar frá fjárhúsum Antons uppi í melum vestan árinnar.

Það má vera til umhugsunar um þrek þeirra Sigurjónu Bjarnadóttur og Jónínu Jónsdóttur að báðar voru þær vanfærar og næstum fullgengnar með. Jónína fæddi dóttur á Sleitustöðum 1. janúar 1926. Það var Sigríður Sölvína Sölvadóttir, síðar búsett í Reykjavík. Sigurjóna eignaðist dóttur 4. janúar 1926. Það var Svava Antonsdóttir, síðar húsfreyja á Kjarvalsstöðum.

Heimild: Byggðasaga Skagafjarðar, VI. bindi. Ritstjóri og aðalhöfundur: Hjalti Pálsson frá Hofi. Sögufélag Skagfirðinga 2011.

Athugasemdir og leiðréttingar við Byggðasögu Skagafjarðar.

Nú er unnið að ritun lokabindis Byggðasögu Skagafjarðar sem kemur út á næsta ári. Í því bindi verða leiðréttingar og viðbætur við bindi 1 til 9, ásamt öðru efni. Mjög mikilvægt er að allir sem komið hafa auga á villur í útkomnum Byggðasögum, komi til okkar athugasemdum. Best er að fá tölvupóst á netfangið saga@skagafjordur.is eða senda bréf á: Byggðasaga Skagafjarðar, Safnahúsi, 550 Sauðárkróki. Einnig má hringja í síma 4536261, eða koma við í Safnahúsinu milli 8:00 og 16:00. Hjalti Pálsson, ritstjóri.
:: meira

Útgáfuhátíð aflýst

Vegna afar vondrar veðurspár er fyrirhugaðri útgáfuhátíð 9. bindis Byggðasögu Skagafjarðar aflýst.
:: meira

Útgáfuhátíð níunda bindis Byggðasögu Skagafjarðar

Útgáfuhátíð níunda bindis Byggðasögu Skagafjarðar verður að Ketilási í Fljótum kl. 20:00 þriðjudaginn 10. desember 2019.
:: meira

Kynning á 9. bindi Byggðasögunnar

Níunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar fjallar um Holtshrepp, samtals 50 býli í ásamt sveitarfélagslýsingu.
:: meira

Tuttugu ára útgáfuafmæli Byggðasögu Skagafjarðar

Í haust eru liðin 20 ár síðan fyrsta bindi Byggðasögu Skagafjarðar kom fyrir augu lesanda. Þeirri hugmynd að hefja ritun Byggðasögunnar var fyrst hreyft í Héraðsráði Skagfirðinga árið 1994.
:: meira

Aðalfundur Sögufélags 2018

Aðalfundur Sögufélags Skagfirðinga fyrir árið 2018 var haldinn í Safnahúsinu á Sauðárkróki 24. október 2019. Formaður félagsins, Hjalti Pálsson, rakti starfsemina 2018. Í máli hans kom fram að félagið hefði aðeins gefið út eitt rit á árinu Skagfirðingabók nr. 38.
:: meira