Forsíða > Fréttir > Aðalfundur Sögufélags
Safnahús Skagfirðinga

Aðalfundur Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags Skagfirðinga fyrir árin 2019-2020 var haldinn í Safnahúsinu á Sauðárkróki fimmtudaginn 18. nóvember 2021 kl. 16.15.

Hjalti Pálsson formaður félagsins setti fund, bauð gesti velkomna og gat þess að aðalfundur ársins 2019 hefði farist fyrir vegna covid-ástands haustið 2020. Í upphafi fundar minntist hann Kristmundar Bjarnasonar rithöfundar og heiðursfélaga frá árinu 2008 en Kristmundur lést þann 4. desember 2020 og vantaði þá rúman mánuð í að verða 101 árs.

Í skýrslu formanns kom fram að á árinu 2019 hefðu þrjár bækur komið út á vegum félagsins. Sú fyrsta var bók eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarborg, Í barnsminni, bernskuminningar höfundar frá Mælifelli. Útgáfudagur hennar var 10. janúar sem jafnframt var 100 ára afmælisdagur Kristmundar. Mun það fágætt ef ekki einsdæmi að út komi ný bók eftir 100 ára rithöfund að honum lifandi. Veglegt útgáfuhóf var haldið í Safnahúsinu laugardaginn 12. janúar og komu um 120 manns en afmælisdrengurinn sjálfur gat þó ekki mætt.

Skagfirðingabók númer 39 kom um mánaðamótin mars/apríl og var dreift í apríl. Í henni voru 12 greinar, höfuðgrein um Símon Dalaskáld og Margréti konu hans. Um haustið kom 9. bindi Byggðasögunnar sem fjallaði um Austur-Fljótin eða Holtshrepp hinn forna. Hún barst ekki úr prentun fyrr en í byrjun desember. Útgáfuhóf sem átti að vera á Ketilási 9. desember fórst fyrir vegna illviðris sem gekk í garð síðdegis en 10. og 11. gerði eftirminnilegt skaðaverður.

Gert var stórátak í að afla nýrra félagsmanna og náðust um 100 nýir félagsmenn sem allir fengu nokkrar eldri bækur í inngöngubónus. Voru félagsmenn þá orðnir vel yfir 800 talsins. Að meðaltali detta um eða yfir 20 út á hverju ári svo sífellt verður að vinna að öflun nýrra félaga til að halda í horfinu. Ingimar Jóhannsson vann að vetrinum við undirbúning útgáfu á Skagfirskum æviskrám.

Á árinu 2020 kom einungis ein bók út, Skagfirðingabók nr. 40. Þar voru 10 greinar. Höfuðgreinin var um Guðjón Ingimundarson íþróttakennara á Sauðárkróki en einnig má nefna tvær afmælisgreinar um þekktustu skagfirsku listamenninga, þá Albert Thorvaldsen 250 ára minning og Sölva Helgason 200 ára minning. Bókin kom úr prentun í byrjun apríl en vegna covid-faraldursins var henni ekki dreift fyrr en í október, útgáfuhóf var haldið 3 október. Þetta ár var einnig unnið að ritun 10. bindis Byggðasögunnar og Ingimar Jónsson vann við æviskrárnar. Rúmlega 20 nýir félagar bættust í hópinn en það vóg varla upp á móti afföllunum. Í árslok munu hafa verið 770-780 á félagatalinu.

Kári Sveinsson bókhaldari las reikninga áranna 2019 og 2020. Þar kom fram að staða félagsins væri traust, hagnaður ársins 2019 var kr. 1.525.555 en kr. 377.355 á árinu 2020.

Úr stjórn áttu að ganga Kristín Jónsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Unnar Ingvarsson. Þau voru voru endurkjörin. Auk þeirra eru í stjórninni Sigfús Ingi Sigfússon og Hjalti Pálsson sem verið hefur formaður félagsins um langa hríð. Í varastjórn voru kjörin Ágúst Guðmundsson og Laufey Leifsdóttir. Reikningshaldarar og skoðunarmenn voru sem fyrr Kári Sveinsson og Margrét Guðmundsdóttir.

Að lokum gerði formaður grein fyrir stöðunni um þessar mundir, nýútkominni bók um Eyþór Stefánsson tónskáld eftir Sölva Sveinsson og tíunda og síðasta bindi Byggðasögunnar sem átti að vera komin til landsins en hefur tafist á annan mánuð í prentsmiðju í Lettlandi og mun varla nást fyrr en um næstu mánaðamót. Verið er að undirbúa útgáfu Skagfirðingabókar nr. 41 sem á að koma út í apríl á næsta ári, og einnig er í vetrarbyrjun stefnt að útgáfu á nýju bindi af Skagfirskum æviskrám frá tímabilinu 1910-1950, hinu níunda í þeim flokki. Urðu nokkrar umræður um þessi mál en fundi lauk um kl. 17.40.

Scroll to Top