Forsíða > Fréttir > Skagfirðingabók 2024 komin út

Skagfirðingabók 2024 komin út

Útgáfu Skagfirðingabókar var fagnað í Gránu á Sauðárkróki sunnudaginn 14.apríl. Bókin er að þessu sinni 200 blaðsíður að stærð með u.þ.b. 170 ljósmyndum og í henni 10 greinar eftir jafnmarga höfunda. Formaður Sögufélagsins og einn ritnefndarmanna, Hjalti Pálsson, bauð gesti velkomna, kynnti efni bókarinnar og kvaddi til nokkra af höfundum sem viðstaddir voru að segja frá umfjöllunarefni sínu. Jón Árni Friðjónsson í Smiðsgerði ritar aðalgrein bókarinnar sem fjallar um Guðmund Márusson byggingameistara frá Bjarnastöðum í Blönduhlíð. Sigurður Haraldsson á Grófargili kynnti frásögn sína frá árunum sem hann stýrði hótelinu í Varmahlíð. Sigtryggur Jón Björnsson frá Framnesi sagði frá skrifum sínum um minnisvarða Stephans G. á Arnarstapa og að síðustu sagði Hjalti Pálsson frá Lárusi flugpósti og las upp úr grein sinni um hann. Milli 20 og 30 manns voru á samkomunni sem stóð í tvo tíma og tókst bærilega. Hægt er að kaupa bókina í afgreiðslu Sögufélags í Safnahúsinu á Sauðárkróki en félagar Sögufélags utan Skagafjarðar frá hana senda heim.

Scroll to Top