Fyrri mynd
NŠsta mynd
Open Menu Close Menu
 
Kápa 8. bindis Byggðasögunnar.
Kápa 8. bindis Byggðasögunnar.

Styttist í útkomu 8. bindis Byggðasögunnar

Útgáfunefnd Byggðsögunnar hélt fund þann 5. október s.l. á heimili formanns útgáfunefndar, Bjarna Maronssonar í Varmahlíð. Þar var farið yfir stöðuna. Áttunda bindi Byggðasögunnar hefur verið brotin um af Óla Erni Brynjarssyni hjá Nýprent á Sauðárkróki og er nú frágengin til prentunar, var send til umboðsaðila mánudaginn 2. október. Hún verður 528 blaðsíður með rúmlega 780 ljósmyndum, kortum og teikningum. Viðfangsefnið er hinn gamli Fellshreppur og Haganeshreppur en vegna stærðar bókarinnar var ákveðið að geyma kaflana um verslunarstaðinn Haganesvík og Haganesbæina til næsta bindis. Mun sá kafli því verða með Austur-Fljótunum. Hafin er vinna við níunda bindið, um Austur-Fljótin, og er áætlað að sú bók komi út eftir tvö ár, þ.e. haustið 2019.

:: meira
Hjalti Pálsson og Óli Arnar Brynjarsson undirbúa bókina fyrir prentun.
Hjalti Pálsson og Óli Arnar Brynjarsson undirbúa bókina fyrir prentun.

Áttunda bindi byggðasögunnar á leið í prentun

Þessa dagana er verið að ganga frá til prentunar áttunda bindi Byggðasögunnar sem mun fjalla um Fellshrepp hinn gamla og Haganeshrepp. Síðustu vikur hafa prófarkalesarar, Hjördís Gísladóttir á Sleitustöðum og Gísli Magnússon frá Frostastöðum, verið að stöfum ásamt ritstjóranum. Það er Óli Arnar Brynjarsson hjá prentmiðjunni Nýprent á Sauðárkróki sem brýtur bókina í síður og gengur frá texta og myndum en prentun verður að þessu sinni erlendis.  Bókin verður rúmlega 500 blaðsíður að stærð og mun frágangi væntanlega ljúka síðar í septembermánuði. Er reiknað með að hún komi út fyrri hlutann í nóvember.  Á meðfylgjandi mynd eru þeir Hjalti ritstjóri og Óli umbrotsmaður að vinna við leiðréttingar.

:: meira
Umhverfi hins ónefnda fornbæjar við strönd Flókadalsvatns. Tóftir skálans eru á þúfnahólnum næst á mynd, mjög ógreinilegar.
Umhverfi hins ónefnda fornbæjar við strönd Flókadalsvatns. Tóftir skálans eru á þúfnahólnum næst á mynd, mjög ógreinilegar.

Fornbýli við strönd Flókadalsvatns

Vinna við áttunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar er nú vel á veg komin og stefnir að útkomu í byrjun nóvember 2017. Það fjallar um Fellshrepp og Haganeshrepp og verður rúmar 500 blaðsíður að stærð. Margt nýtt er þar dregið fram í dagsljósið, m.a. tilvist fornbýla sem lítt eða ekki var áður kunnugt um. Í júlímánuði s.l. var uppgötvað fornbýli í landi Barðs í Fljótum vestan í Akraásnum sunnarlega, við strönd Flókadalsvatnsins. Byggðasöguritari skoðaði þar þúfur og taldi sig sjá merki um fornan skála, e.t.v. frá landnámsöld, ásamt fleiri kofatóftum. Þessi fundur var rannsakaður nánar með fornleifaathugum þann 17. júlí 2017. Staðfesting fékkst þá á skála, um 21x7-8 m að utanmáli, rétt við gamlar og skýrar götur sem vitna um fyrrum alfaraleið meðfram vatninu til Reykjabæjanna og áfram inn í Flókadalinn. Greinileg merki voru um mannvist í tóftinni, gólflag og viðarkolaleifar víða. Hvergi fundust öskulög í eða við skálatóftina, nema í aðfluttu torfi í veggjum einhverrar byggingar sem virtist áföst norðan við sjálfan skálann. Þar fannst öskulagið frá 1104 í veggjatorfi sem sýnir að hún hafði verið hlaðin eftir 1104. Að öðru leyti tókst ekki að aldursgreina tóftina en ljóst að hún er mjög gömul. Útgangsdyr eru til vesturs og þar framan við brött brekka niður að vatninu. Tóftir smáhýsa voru á a.m.k. þremur stöðum skammt frá. Lækjarsytra finnst enn í gildragi um 40 m norðan við tóftina. Engar heimildir eru um bæ á þessum stað og þar af leiðandi ekkert nafn við að styðjast. En ljóst er að þarna hefur verið mannabústaður um eitthvert skeið, en trúlega ekki mjög lengi.
:: meira
Drónamynd af Gautastöðum
Drónamynd af Gautastöðum

Leitin að kirkjugarðinum á Gautastöðum

Þann 16. maí s.l. fóru byggðasöguritarar ásamt fornleifafræðingi og landfræðingi í vettvangsferð að Gautastöðum í Stíflu til að kanna þar fornan kirkjugarð sem venjulega er rétt neðan fjöruborðs uppistöðulóns Stífluvirkjunar Vatnsborð lónsins lækkar jafnan verulega á veturna svo að garðstæðið kemur upp á vorin þangað til lónið fyllist. Farið var á gúmbáti yfir vatnið með útbúnað en sumir gengu utan frá stíflunni um kílómetra leið. Gerð var tilraun að finna grafir og staðfesta garðinn með beinafundi en það tókst ekki í þessari tilraun vegna þess að moldarlag yfirborðsins hefur allt þvegist burtu en undir grjótblandin leirskriða og tími var naumur til starfans. Varðveisla beina er trúlega afar slæm þar sem garðurinn liggur löngum undir vatni og. Lítið eitt sást þó af smágerðu beinamusli. Samkvæmt vitnisburðum manna sem heima áttu á Gautastöðum er vitað nákvæmlega hvar garðurinn er og á malarkenndu yfirborðinu má óljóst greina hringlaga garðinn og .grjótlögn kirkjugólfsins. 

:: meira
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Ásta Pálsdóttir sveitarstjóri Skagafjarðar og Hjalti Pálsson formaður Sögufélags.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Ásta Pálsdóttir sveitarstjóri Skagafjarðar og Hjalti Pálsson formaður Sögufélags.

Afmæli Sögufélags og Héraðsskjalasafns

Fjölmenni á ráðstefnu í Miðgarði

Björn Björnsson fyrrverandi skólastjóri ritaði frétt í Morgunblaðið um afmælishátíð Sögufélags Skagfirðinga og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Greinin er hér birt nokkuð stytt.
:: meira

Afmæli Sögufélags Skagfirðinga

Málþing í Miðgarði 7. maí

Í tilefni af stórafmæli Sögufélags Skagfirðinga, sem verður 80 ára, og Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, sem verður 70 ára, verður haldið málþing í Miðgarði 7. maí n.k. klukkan 14. Málþingið ber yfirskriftina: Skagfirsk fræði í nútíð og fortíð. Dagskrá málþingsins skoða nánar með því að smella á myndina.
:: meira